29 nóvember, 2007

Skáld dagsins




Dagbloggsíðunni hefur borist eftirfarandi erindi frá fátæku ungskáldi :


Kæru fjölmiðlungar, vinir, kunningjar, vinir kunningja, valdsmenn vorrar fósturjarðar, lögfræðingar og leikskólakennarar.

Svo illa er komið fyrir okkur skáldunum sem búa erlendis að við getum ekki tekið þátt í bókakynningarstarfi því sem á sér stað fyrir jólin, getum hvorki lesið upp úti um allar trissur né prangað bókum upp á saklausa kaffihúsagesti. Þegar við bætist að fátækt okkar leyfir ekki kaup á auglýsingum í fjölmiðlum, er illt í efni. Hef ég því brugðið á það ráð að bjóða fólki að kynna sér nýja bók mína, /Þjónn, það er Fönix í öskubakkanum mínum!/ á nýrri heimasíðu, http://fonix.spekingar.com. Þar er hægt að sjá upplestra á ljóðum úr einræðisherraseríunni, hægt að skoða þrjú myndljóð - þar af tvö sem hafa verið endurútsett fyrir vef - auk þess sem lesa má nokkur ljóð til úr hinum ólíku hlutum bókarinnar. Jón Örn Loðmfjörð óf síðuna.

Um bókina sagði gagnrýnandinn Jón Yngvi Jóhannsson m.a. í Íslandi í dag: "Eiríkur er Snorri Sturluson tuttugustu og fyrstu aldarinnar. /Þjónn það er fönix í öskubakkanum mínum/ er ekki bara ljóðasafn heldur stefnuyfirlýsing."

Þá má minna þá sem keyptu eintök í forsölu að hægt er að nálgast þau í verslun Smekkleysu við Laugaveg.

Bókin er annars til sölu í flestum betri bókabúðum.

Þætti mér vænt um ef að þú gætir komið þessu á framfæri - svo ekki hverfi bókin alveg í hafsjó bókaflóðsins - hvort heldur það er með því að áframsenda þennan póst, setja hlekk á netið eða vekja athygli á þessu í þeim fjölmiðli sem þú starfar á.

Veffangið er: http://fonix.spekingar.com.

Með kærri kveðju,
Eiríkur Örn Norðdahl


ps. Mér þykir fyrir því berist þessi póstur nokkrum þeim sem ekki kærir sig um hann, það er ekki meiningin að vinna nokkrum illt.

Sjórn Dagbloggsins tók erindi hans til skoðunnar á löngum og ströngum umræðufundi þar sem steytt var úr eigi færri glösum en 14 af Egils appelsíni og einu af Canada Dry Ginger Ale. Var það einróma álit allra viðstaddra að þarna væri einkar áhugavert menningarefni á ferð og samræmdist það vel ritstjórnarstefnu Dagbloggsins að veita erindi þessu brautargengi. Og svaraði bréfi þessu svo hljóðandi:

Ágæta skáld , Eiríkur Örn Norðdahl.
Það er okkur sönn ánægja að kynna kveðskap þinn á hinni víðfrægu síðu http://steinn52.blogspot.com/ sem eins og alþjóð veit er ein metnaðarfyllsta og víðlesnasta bloggsíða þeirra sem nú um stundir fjalla um listir, menninngarmál og gosdrykki á Norðurlandi Eystra. Vegni þér vel í vegferð þinni innanlands sem utan.

F.h. Dagbloggs Steins

Steinn Kristjánsson.



24 nóvember, 2007

Óskalög sjúklinga 1

Fyrir nákvæmlega 25 árum síðan var þetta lag á toppnum:



Þetta er nú eitthvað annað en þessi rækalls gargandi sem ungdómurinn í dag er að hlusta á.


Kynningarfundur að stofnun fagfélags myndlistarmanna

Kynningarfundur að stofnun fagfélags myndlistarmanna á Norðurlandi verður haldinn laugardaginn 24. nóvember í Deiglunni, Listagili, Akureyri, kl 17:00. Kynntar verðar hugmyndir að félaginu og á fundinum verður valin undirbúningsnefnd til stofnunar félagsins. Allt myndlistarfólk velkomið. - Hvernig eflum við myndlist og menningu á Norðurlandi? - Hvað á myndlistarfólk á Norðurlandi sameiginlegt? - Hver eru hagsmunamál myndlistarmanna? - Getum við haft meiri áhrif saman en í sitt hverju lagi? - Hvað viljum við og hvað getum við gert? Undibúningshópurinn



09 nóvember, 2007

Limrur 2



Í kjölfar títtumræddrar gagngerrar innri endurskoðunar á starfsemi og starfsháttum Dagbloggsins hefur fundist í fornbrjefasafni bloggsins gamalt og snjáð bréf og er það birt hér stafrétt samkvæmt endur- eða umritun færustu fílólóka sem fáanlegir voru til starfans í umdæmi norðlenskra:

Limrur frá liðnum vetri

Ærið er eftirtekjan rýr þá samanteknar eru þær limrur sem eftir áramót vóru kviðnar. Er þá til þess horft í einn stað, að nær öngvar hafa varðveizt í munnlegri geymd þar eð elztu mönnum ku vera farið að förlazt svo sem slíkum er gjarnt á um og eins þess í annan stað að þá er skyggnst er inn um gætt eður gátt, eins og sumir einnegin vilja kalla svo, í húskofa hjá enöm [sic] yngri mönnum er gleggni þeirra næzta viðbrugðið og kofinn tómör [sic].
Tækifærisskáldið hefur aða sönnu hripað niður á snipsi margan kviðling og stungið í buxnavasann, en þar svo sem í margan annan stað verður honum hégóminn og þrifnaðaráráttan til lítillar upphefðar né framdráttar þá er snipsi þessi týnst hafa eður fordjarfast í þvottavélinni.
Þó ku (svo vitað sé) einum þrim en þó líkast til nær að segja fjórum, til haga verið haldið limrum svo sem og um er getið í annálum af útmánuðum anne domine 2007 svo sem .....
[hér vantar eigi færri en þrjár blaðsíður í handrit]
....og eiga limrur þessar það allar sammerkt að vera torræðar flestum alþýðu mönnum og kvinnum. En hvort viðfang þeirra stundlegt eður eilíft er til áhrínis ætlað eða tiktúrur meinbægins stráksskapar í eigin eður annarra garð skal eigi um sagt:

1

Veraldarvefstólahönnuður,
völundur, Norðurlandkönnuður
tekur af tvímæli
tvítekur nýmæli
óðfræðireglu afsönnuður.

2

Það var eitt sinn maður um mann
því miður (semsagt fyrir hann).
En minningin lifir
þó moldu hans yfir
En mannkertið niður það brann.

3

Ef fólk mig spyr og fá ég svörin veiti
svo fjarri að ég muni hvað ég heiti
Ég veit ekki hver
ég var eða er
að velflestu (ef þá ekki öllu) leyti.

4

"Samvisku minnar vegna segi ég me..."
sagði ein kind er hún fattaði hvað var að ske.
"eftir áratugs jarm
tel ég angur og harm
að enda sem kinda-paté"

02 nóvember, 2007

5 ÁRA BLOGG AFMÆLI




2. nóvember hefur í gegnum tíðina verið haldinn merkur dagur í sögu fjölmiðlunar og marg- miðlunar á Íslandi.
Add Image
Þann 2. nóvember1906 hóf fyrsta kvikmyndahús á Íslandi göngu sína í Fjalakettinum við Aðalstræti í Reykjavík og nefndist Reykjavíkur Biograftheater og varð seinna Gamla bíó.

Ekki þykir nú síðri viðburður né óminnisverðari hafa gerzt þann 2. nóvember 1913 þegar Morgunblaðið hóf göngu sína en stofnandi og fyrsti ritstjóri þess var Vilhjálmur Finsen.

Án þess að verið sé að nokkru leyti að gera lítið úr þessum annars stórviðburðum þá held ég þó að ekki sé á nokkurn hátt á nokkurn hallað þegar ég held hér fram, og hef ég í því efni fyrir mér mér fróðari og upplýstari menn, að þessir atburðir falli algerlega í skuggann af þeim er átti sér stað þann 2. nóvember 2002. En þá var í einu gömlu húsi í vesturbæ Reykjarvíkur hleypt af stokkunum Dagbloggi nokkru er einhverjir kannast hugsanlega við.

Fyrsta færzlan hljóðaði svo (orðrétt):

02. nóvember 2002

Í dag byrjaði ég að blogga. Ómar kom og kenndi mér á bloggið. Í framtíðinni ætla ég að blogga um daginn og veginn og ýmis hjartans mál.

Þessi merku orð lýsa öðru fremur þeim metnaði og frumkvöðlaanda sem strax í upphafi var ríkjandi á þessum fyrstu árum Dagbloggsins og hefur hvort tveggja aukist jafnt og þétt í öfugu hlutfalli við framkvæmdasemi Steins á flestum sviðum öðrum.

Á þessum árum var bloggið að ryðja sér til rúms og voru um það skiptar skoðanir. Sumir héldu að bloggið yrði til þess að ganga að bókmenntum og dagblöðum dauðum aðrir sáu það í hendi sér að hér væri loksins kominn vettvangur fyrir konur og aðra minnihlutahópa sem alltof lengi höfðu verið sniðgengnir í fjölmiðlum til að láta ljós sitt skína.
Hygg ég að hvurugur þessara spádóma hafi ræzt svo nokkru muni og ræður þar líklega mestu hið fornkveðna, að ekki batna alltaf heimskra manna ráð þó fleiri komi saman. Og líkast til er það einnig ástæðan fyrir því að Dagblogg Steins hefur, þrátt fyrir vafasama ritstjórnarstefnu á köflum, haldi þeim víða velli sem það hefur reikað um á frá upphafi.

Það markmið sem sett var frá fyrsta degi var afar einfalt. Bloggið skyldi vera MEGABLOGG. til að árétta þetta var það orð sett í haus bloggsins og hefur staðið þar síðan.

Á dögunum rakst ég á einkar áhugaverða GREIN UM BLOGG sem ég hvet alla til að lesa. Hún er glöggt vitni um það að í kringum bloggið hefur eins og í kringum öll samfélagsleg fyrirbæri sem festa sig í sessi orðið til sérstök fræðigrein, bloggfræði eða ættum við kannski frekar að segja bloggunarfræði (smbr. tölvunarfræði). Í þessarri grein eru tíundaðir ýmsir flokkar og undirflokkar blogga. Sá sem einna merkilegastur er talinn er svokallað ofurblogg. Slíkt blogg er þó engan vegin eins merkilegt og Megablogg sem ég uppgötvaði fyrir sléttum 5 árum og tel mig hafa einkarétt á þó ýmsir hafi reynt að hafa þann vafasama heiður af mér. En þetta þýðir í raun bara eitt og það er það að það er tekin að myndast stétt manna sem kallar sig bloggfræðinga. Þegar mér af minni alkunnu smekkvísi og samanburðarmálfræðikunnáttu tókst að þýða orðið bloggfræðingur yfir á erlenda tungu útlagðist það - á ensku ; a blogologist, - á þýzku; ein Blogolog og - á latínu Blogologus eða Blogologus Maximus ef hann lætur eitthvað að sér kveða. Að því búnu ákvað ég að slá þessu orði upp til að ganga nú úr skugga um hvort nokkur væri jafn vitlaus og ég að láta sér detta svona bull í hug. Og viti menn að sjálfsögðu fann ég mann sem með sanni má kallast BLOGGÓLÓKUR. Á bloggsíðu sinni útlistar hann á skipulegan hátt þá bloggfræðilegu forsendur sem nauðsynlegar eru fyrir góðu bloggi. Sú bloggaðferðarfræðilega nálgun sem hann setur fram er kærkomin sem og þær bloggsiðferðilegu spurningar sem hann varpar fram eru okkur sem himnasending á þessum síðustu (ég segi nú kannski samt ekki verztu þar sem ég er nú þrátt fyrir allt bjartsýnismaður) tímum.
Ljóst er að starfsfólk Dagbloggsins mun notast við fræði þessa alkunna bloggólóks á næztu misserum enda stendur nú í tilefni Bloggafmælisins títtumrædda yfir gagnger endurskoðun allra bloggrænna þátta en einkum þó þeirra er lúta að ritstjórnarstefnu og endurmenntun starfsmanna. Þar að auki hefur til ráðuneytis verið í mötuneyti skipaður sænskur næringarfræðingur og mun hann standa fyrir gagngerri endurskoðun og umbyltingu á mataræði starfsmanna.

Í tilefni þessarra tímamóta var haldinn tímamótafundur svokallaður. Á hvurjum á stokk eður stokktrje stje forstöðumaður greiningardeildar Dagbloggsins og greindi frá niðurstöðu eður niðurstöðum þverhandarþykkrar skýrzlu í hvurri má finna statistík síðustu 5 ára.
Þar kemur fam að frá upphafi bloggunar hafi 134 færslur birzt á blogginu og deilist tíðni þeirra svo eftir árum:


Þegar litið er til færzluflokka er efnisleg skipting þeirra sem hér segir:


Jafnframt kom fram að á tímabilinu 6. sept - 1. nóv 2007 hefðu hvorki fleiri né heldur færri en 699 gestir heimsótt síðuna sem jafngildir því að 12, 7 manns að meðaltali hafi skoðað þessa síðu á degi hvurjum á umræddu tímabili.
Ritstjóri síðunnar fagnaði þessarri niðurstöðu og sagði þetta ótvírætt merki þess að síðan hefði fezt sig í sessi sem ein almikilvægasta upplýsingaveita í norðuramti. Forstöðumaður greiningardeildar sagði það af og frá að draga slíka ályktan því nánari rannsóknir sem framkvæmdar hefðu verið með fullu samþykki tölvusiðanefndar leiddu ótvírætt í ljós að flestar kæmu þessar heimsóknir úr tölvu ritstjórans sjálfs sem færi oft á dag inn á síðuna, gagngert til að kanna hvort virkilega enginn annar hefði skoðað síðuna. Taldi forstöðumaður greiningardeildar þetta jafnframt mjög í anda þeirrar sjálfhverfu ritstjórnarstefnu sem rekin hefði verið undangengin fimm ár og væri síst til eftirbreytni. Varð af þessu allnokkurt hnútukast
ritsjórans og forstöðumanns greiningardeildar í millum sem lauk með því að forstöðumaður var færður til í starfi og vinnur hann nú hjá Saga Capital við ræstingar.
Þegar hér var komið sögu birtist stjórnarformaður almannatengsladeildar Dagbloggsins og er óhætt að segja að hann hafi komið færandi hendi en hann hafði einmitt fundið í gamalli vöruskemmu niðri á Oddeyri heilt og næsta óskaddað vörubretti af sykurlausu Sanitas appelsíni frá mektarárum akureyrskrar gosdrykkjaframleiðslu og hófst nú drykkja allhraust og tekur að verða örðugara að fá greint í fundargerðarbækur en þó virðist sem deildarstjóri öryggisdeildar Dagbloggþjónustu Norðurlands Eystra (DNA), Lýður Lýðsson hafi farið með þrítuga afmælisdrápu í tilefni dagsins. Sem betur fer hefur ekki varðveist nema brot af þeim kveðskap og þó okkur sé það vissulega þvert um geð þá ber engu síður, skýlaust , skv 13. grein upplýsingalaga að birta það litla sem varðveizt hefur af kveðskap þessum.


Sanítas mun sett í glas
setjum þras og geymum bras.
Brátt mun flas og bútangas
bráða dasa og spekja fas

Eflum grín með appelsín
enda sýnist veigin fín
áhrif mín sem eðalvín
því aldrei dvín er sólin skín

Skáldagnoð á skeri hroða
má skoða steytt og farminn hnoð
Á þeim boða æ mun loða
Ei mun stoða að melda voða.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?