02 nóvember, 2007

5 ÁRA BLOGG AFMÆLI




2. nóvember hefur í gegnum tíðina verið haldinn merkur dagur í sögu fjölmiðlunar og marg- miðlunar á Íslandi.
Add Image
Þann 2. nóvember1906 hóf fyrsta kvikmyndahús á Íslandi göngu sína í Fjalakettinum við Aðalstræti í Reykjavík og nefndist Reykjavíkur Biograftheater og varð seinna Gamla bíó.

Ekki þykir nú síðri viðburður né óminnisverðari hafa gerzt þann 2. nóvember 1913 þegar Morgunblaðið hóf göngu sína en stofnandi og fyrsti ritstjóri þess var Vilhjálmur Finsen.

Án þess að verið sé að nokkru leyti að gera lítið úr þessum annars stórviðburðum þá held ég þó að ekki sé á nokkurn hátt á nokkurn hallað þegar ég held hér fram, og hef ég í því efni fyrir mér mér fróðari og upplýstari menn, að þessir atburðir falli algerlega í skuggann af þeim er átti sér stað þann 2. nóvember 2002. En þá var í einu gömlu húsi í vesturbæ Reykjarvíkur hleypt af stokkunum Dagbloggi nokkru er einhverjir kannast hugsanlega við.

Fyrsta færzlan hljóðaði svo (orðrétt):

02. nóvember 2002

Í dag byrjaði ég að blogga. Ómar kom og kenndi mér á bloggið. Í framtíðinni ætla ég að blogga um daginn og veginn og ýmis hjartans mál.

Þessi merku orð lýsa öðru fremur þeim metnaði og frumkvöðlaanda sem strax í upphafi var ríkjandi á þessum fyrstu árum Dagbloggsins og hefur hvort tveggja aukist jafnt og þétt í öfugu hlutfalli við framkvæmdasemi Steins á flestum sviðum öðrum.

Á þessum árum var bloggið að ryðja sér til rúms og voru um það skiptar skoðanir. Sumir héldu að bloggið yrði til þess að ganga að bókmenntum og dagblöðum dauðum aðrir sáu það í hendi sér að hér væri loksins kominn vettvangur fyrir konur og aðra minnihlutahópa sem alltof lengi höfðu verið sniðgengnir í fjölmiðlum til að láta ljós sitt skína.
Hygg ég að hvurugur þessara spádóma hafi ræzt svo nokkru muni og ræður þar líklega mestu hið fornkveðna, að ekki batna alltaf heimskra manna ráð þó fleiri komi saman. Og líkast til er það einnig ástæðan fyrir því að Dagblogg Steins hefur, þrátt fyrir vafasama ritstjórnarstefnu á köflum, haldi þeim víða velli sem það hefur reikað um á frá upphafi.

Það markmið sem sett var frá fyrsta degi var afar einfalt. Bloggið skyldi vera MEGABLOGG. til að árétta þetta var það orð sett í haus bloggsins og hefur staðið þar síðan.

Á dögunum rakst ég á einkar áhugaverða GREIN UM BLOGG sem ég hvet alla til að lesa. Hún er glöggt vitni um það að í kringum bloggið hefur eins og í kringum öll samfélagsleg fyrirbæri sem festa sig í sessi orðið til sérstök fræðigrein, bloggfræði eða ættum við kannski frekar að segja bloggunarfræði (smbr. tölvunarfræði). Í þessarri grein eru tíundaðir ýmsir flokkar og undirflokkar blogga. Sá sem einna merkilegastur er talinn er svokallað ofurblogg. Slíkt blogg er þó engan vegin eins merkilegt og Megablogg sem ég uppgötvaði fyrir sléttum 5 árum og tel mig hafa einkarétt á þó ýmsir hafi reynt að hafa þann vafasama heiður af mér. En þetta þýðir í raun bara eitt og það er það að það er tekin að myndast stétt manna sem kallar sig bloggfræðinga. Þegar mér af minni alkunnu smekkvísi og samanburðarmálfræðikunnáttu tókst að þýða orðið bloggfræðingur yfir á erlenda tungu útlagðist það - á ensku ; a blogologist, - á þýzku; ein Blogolog og - á latínu Blogologus eða Blogologus Maximus ef hann lætur eitthvað að sér kveða. Að því búnu ákvað ég að slá þessu orði upp til að ganga nú úr skugga um hvort nokkur væri jafn vitlaus og ég að láta sér detta svona bull í hug. Og viti menn að sjálfsögðu fann ég mann sem með sanni má kallast BLOGGÓLÓKUR. Á bloggsíðu sinni útlistar hann á skipulegan hátt þá bloggfræðilegu forsendur sem nauðsynlegar eru fyrir góðu bloggi. Sú bloggaðferðarfræðilega nálgun sem hann setur fram er kærkomin sem og þær bloggsiðferðilegu spurningar sem hann varpar fram eru okkur sem himnasending á þessum síðustu (ég segi nú kannski samt ekki verztu þar sem ég er nú þrátt fyrir allt bjartsýnismaður) tímum.
Ljóst er að starfsfólk Dagbloggsins mun notast við fræði þessa alkunna bloggólóks á næztu misserum enda stendur nú í tilefni Bloggafmælisins títtumrædda yfir gagnger endurskoðun allra bloggrænna þátta en einkum þó þeirra er lúta að ritstjórnarstefnu og endurmenntun starfsmanna. Þar að auki hefur til ráðuneytis verið í mötuneyti skipaður sænskur næringarfræðingur og mun hann standa fyrir gagngerri endurskoðun og umbyltingu á mataræði starfsmanna.

Í tilefni þessarra tímamóta var haldinn tímamótafundur svokallaður. Á hvurjum á stokk eður stokktrje stje forstöðumaður greiningardeildar Dagbloggsins og greindi frá niðurstöðu eður niðurstöðum þverhandarþykkrar skýrzlu í hvurri má finna statistík síðustu 5 ára.
Þar kemur fam að frá upphafi bloggunar hafi 134 færslur birzt á blogginu og deilist tíðni þeirra svo eftir árum:


Þegar litið er til færzluflokka er efnisleg skipting þeirra sem hér segir:


Jafnframt kom fram að á tímabilinu 6. sept - 1. nóv 2007 hefðu hvorki fleiri né heldur færri en 699 gestir heimsótt síðuna sem jafngildir því að 12, 7 manns að meðaltali hafi skoðað þessa síðu á degi hvurjum á umræddu tímabili.
Ritstjóri síðunnar fagnaði þessarri niðurstöðu og sagði þetta ótvírætt merki þess að síðan hefði fezt sig í sessi sem ein almikilvægasta upplýsingaveita í norðuramti. Forstöðumaður greiningardeildar sagði það af og frá að draga slíka ályktan því nánari rannsóknir sem framkvæmdar hefðu verið með fullu samþykki tölvusiðanefndar leiddu ótvírætt í ljós að flestar kæmu þessar heimsóknir úr tölvu ritstjórans sjálfs sem færi oft á dag inn á síðuna, gagngert til að kanna hvort virkilega enginn annar hefði skoðað síðuna. Taldi forstöðumaður greiningardeildar þetta jafnframt mjög í anda þeirrar sjálfhverfu ritstjórnarstefnu sem rekin hefði verið undangengin fimm ár og væri síst til eftirbreytni. Varð af þessu allnokkurt hnútukast
ritsjórans og forstöðumanns greiningardeildar í millum sem lauk með því að forstöðumaður var færður til í starfi og vinnur hann nú hjá Saga Capital við ræstingar.
Þegar hér var komið sögu birtist stjórnarformaður almannatengsladeildar Dagbloggsins og er óhætt að segja að hann hafi komið færandi hendi en hann hafði einmitt fundið í gamalli vöruskemmu niðri á Oddeyri heilt og næsta óskaddað vörubretti af sykurlausu Sanitas appelsíni frá mektarárum akureyrskrar gosdrykkjaframleiðslu og hófst nú drykkja allhraust og tekur að verða örðugara að fá greint í fundargerðarbækur en þó virðist sem deildarstjóri öryggisdeildar Dagbloggþjónustu Norðurlands Eystra (DNA), Lýður Lýðsson hafi farið með þrítuga afmælisdrápu í tilefni dagsins. Sem betur fer hefur ekki varðveist nema brot af þeim kveðskap og þó okkur sé það vissulega þvert um geð þá ber engu síður, skýlaust , skv 13. grein upplýsingalaga að birta það litla sem varðveizt hefur af kveðskap þessum.


Sanítas mun sett í glas
setjum þras og geymum bras.
Brátt mun flas og bútangas
bráða dasa og spekja fas

Eflum grín með appelsín
enda sýnist veigin fín
áhrif mín sem eðalvín
því aldrei dvín er sólin skín

Skáldagnoð á skeri hroða
má skoða steytt og farminn hnoð
Á þeim boða æ mun loða
Ei mun stoða að melda voða.

Comments:
Það er nefninlega það!

Til hamingju með megabloggs-afmælið.

Vil benda ritstjóra að kynna sér Guy Fawkes og hans lífshlaup.
 
til hamingju með blogg afmælið:) vel af sér vikið.
kveðja Karen
 
Skrifa ummæli



<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?