09 nóvember, 2007

Limrur 2



Í kjölfar títtumræddrar gagngerrar innri endurskoðunar á starfsemi og starfsháttum Dagbloggsins hefur fundist í fornbrjefasafni bloggsins gamalt og snjáð bréf og er það birt hér stafrétt samkvæmt endur- eða umritun færustu fílólóka sem fáanlegir voru til starfans í umdæmi norðlenskra:

Limrur frá liðnum vetri

Ærið er eftirtekjan rýr þá samanteknar eru þær limrur sem eftir áramót vóru kviðnar. Er þá til þess horft í einn stað, að nær öngvar hafa varðveizt í munnlegri geymd þar eð elztu mönnum ku vera farið að förlazt svo sem slíkum er gjarnt á um og eins þess í annan stað að þá er skyggnst er inn um gætt eður gátt, eins og sumir einnegin vilja kalla svo, í húskofa hjá enöm [sic] yngri mönnum er gleggni þeirra næzta viðbrugðið og kofinn tómör [sic].
Tækifærisskáldið hefur aða sönnu hripað niður á snipsi margan kviðling og stungið í buxnavasann, en þar svo sem í margan annan stað verður honum hégóminn og þrifnaðaráráttan til lítillar upphefðar né framdráttar þá er snipsi þessi týnst hafa eður fordjarfast í þvottavélinni.
Þó ku (svo vitað sé) einum þrim en þó líkast til nær að segja fjórum, til haga verið haldið limrum svo sem og um er getið í annálum af útmánuðum anne domine 2007 svo sem .....
[hér vantar eigi færri en þrjár blaðsíður í handrit]
....og eiga limrur þessar það allar sammerkt að vera torræðar flestum alþýðu mönnum og kvinnum. En hvort viðfang þeirra stundlegt eður eilíft er til áhrínis ætlað eða tiktúrur meinbægins stráksskapar í eigin eður annarra garð skal eigi um sagt:

1

Veraldarvefstólahönnuður,
völundur, Norðurlandkönnuður
tekur af tvímæli
tvítekur nýmæli
óðfræðireglu afsönnuður.

2

Það var eitt sinn maður um mann
því miður (semsagt fyrir hann).
En minningin lifir
þó moldu hans yfir
En mannkertið niður það brann.

3

Ef fólk mig spyr og fá ég svörin veiti
svo fjarri að ég muni hvað ég heiti
Ég veit ekki hver
ég var eða er
að velflestu (ef þá ekki öllu) leyti.

4

"Samvisku minnar vegna segi ég me..."
sagði ein kind er hún fattaði hvað var að ske.
"eftir áratugs jarm
tel ég angur og harm
að enda sem kinda-paté"

Comments: Skrifa ummæli



<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?