29 nóvember, 2007

Skáld dagsins




Dagbloggsíðunni hefur borist eftirfarandi erindi frá fátæku ungskáldi :


Kæru fjölmiðlungar, vinir, kunningjar, vinir kunningja, valdsmenn vorrar fósturjarðar, lögfræðingar og leikskólakennarar.

Svo illa er komið fyrir okkur skáldunum sem búa erlendis að við getum ekki tekið þátt í bókakynningarstarfi því sem á sér stað fyrir jólin, getum hvorki lesið upp úti um allar trissur né prangað bókum upp á saklausa kaffihúsagesti. Þegar við bætist að fátækt okkar leyfir ekki kaup á auglýsingum í fjölmiðlum, er illt í efni. Hef ég því brugðið á það ráð að bjóða fólki að kynna sér nýja bók mína, /Þjónn, það er Fönix í öskubakkanum mínum!/ á nýrri heimasíðu, http://fonix.spekingar.com. Þar er hægt að sjá upplestra á ljóðum úr einræðisherraseríunni, hægt að skoða þrjú myndljóð - þar af tvö sem hafa verið endurútsett fyrir vef - auk þess sem lesa má nokkur ljóð til úr hinum ólíku hlutum bókarinnar. Jón Örn Loðmfjörð óf síðuna.

Um bókina sagði gagnrýnandinn Jón Yngvi Jóhannsson m.a. í Íslandi í dag: "Eiríkur er Snorri Sturluson tuttugustu og fyrstu aldarinnar. /Þjónn það er fönix í öskubakkanum mínum/ er ekki bara ljóðasafn heldur stefnuyfirlýsing."

Þá má minna þá sem keyptu eintök í forsölu að hægt er að nálgast þau í verslun Smekkleysu við Laugaveg.

Bókin er annars til sölu í flestum betri bókabúðum.

Þætti mér vænt um ef að þú gætir komið þessu á framfæri - svo ekki hverfi bókin alveg í hafsjó bókaflóðsins - hvort heldur það er með því að áframsenda þennan póst, setja hlekk á netið eða vekja athygli á þessu í þeim fjölmiðli sem þú starfar á.

Veffangið er: http://fonix.spekingar.com.

Með kærri kveðju,
Eiríkur Örn Norðdahl


ps. Mér þykir fyrir því berist þessi póstur nokkrum þeim sem ekki kærir sig um hann, það er ekki meiningin að vinna nokkrum illt.

Sjórn Dagbloggsins tók erindi hans til skoðunnar á löngum og ströngum umræðufundi þar sem steytt var úr eigi færri glösum en 14 af Egils appelsíni og einu af Canada Dry Ginger Ale. Var það einróma álit allra viðstaddra að þarna væri einkar áhugavert menningarefni á ferð og samræmdist það vel ritstjórnarstefnu Dagbloggsins að veita erindi þessu brautargengi. Og svaraði bréfi þessu svo hljóðandi:

Ágæta skáld , Eiríkur Örn Norðdahl.
Það er okkur sönn ánægja að kynna kveðskap þinn á hinni víðfrægu síðu http://steinn52.blogspot.com/ sem eins og alþjóð veit er ein metnaðarfyllsta og víðlesnasta bloggsíða þeirra sem nú um stundir fjalla um listir, menninngarmál og gosdrykki á Norðurlandi Eystra. Vegni þér vel í vegferð þinni innanlands sem utan.

F.h. Dagbloggs Steins

Steinn Kristjánsson.



Comments: Skrifa ummæli



<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?