Þann 9. febrúar 1895 fann William G. Morgan allt í einu upp blakíþróttina. Blak er í raun ekki flókinn leikur og svo virðist sem hann hafi ekki verið nema einn dag að finna það upp. En eins og alþjóð veit átti þessi uppátækjasemi hans eftir að draga dilk á eftir sér og því má með sanni segja að þennan febrúardag hafi hann unnið drýgra dagsverk en margur. Sjálfsagt hefur William verið orðinn leiður á hefðbundnum íþróttagreinum og því ákveðið að finna upp nýja. Ég er fyrir mína parta orðinn langþreyttur á þeirri íhaldssemi sem felst í að spila og sýna alltaf sömu íþróttagreinar út í eitt. Eins og fótbolta og handbolta og þætti ekki úr vegi að einhver góður maður fyndi upp eitthvað nýtt. Eitthvað sem við íslendingar gætum orðið góðir í , t.d. Raufarhafnarbolta, mölkúluvarp, oddaflugsund, og hefilbekkpressu svo eitthvað sé nefnt. Það þyrfti varla að taka meira en dagstund.