29 janúar, 2008

Ertu skarpari en skólakrakki?


Í tilefni af slæmri útkomu íslenskra skólabarna í PISA keppninni víðfrægu ákvað greiningardeild Dagbloggsins í samráði við endurmenntunarsvið sömu stofnunnar að taka til rannsóknar námsefni í íslenskum grunnskólum. Þessi faglega rannsókn gekk nokkuð hratt og þrautarlaust fyrir sig þar til rannsóknaraðilar komu að blaðsíðu 40 í Geisla, stærðfræðibók fyrir 6. bekk grunnskóla. Þar er eftirfarandi dæmi:


Steypireyður er stærsta dýr jarðarinnar.
Hún er álíka löng og 10 hæða hús er hátt.
Hversu margir fólksbílar eru jafnþungir og steypireyður?

Þrátt fyrir að hafa hringt í sérfróða aðila eins og Bílgreinasambandið, Alþjóða hvalveiðiráðið og bygginga- og skipulagsnefnd Akureyrar hefur engin getað komið með gott svar.

Eins og gefur að skilja hefur rannsóknin verið í uppnámi síðustu vikurnar og öllum öðrum hlutum hefur verið ýtt út af borðinu þar til botn hefur fengist í þetta mál þar sem þetta hefur að skiljanlegum ástæðum verið sett í algeran forgang. Óhætt er að segja að vel flestir sem að þessarri rannsókn hafa komið hafi á einhverjum tíma sólarhringsins misst svefn út af þessu snúna verkefni.

Það er því einlæg ósk okkar að þið lesendur góðir getið liðsinnt okkur við að leysa úr þessu og finna rétta svarið enda er heiður Dagbloggsins að veði og ljóst að vanþekking starfsmanna þess á umræddum hlutum er einkar vel til þess fallinn til að draga úr þeim trúverðugleika sem þessi bloggsíða hefur einatt lagt mikið uppúr og því góða orðspori sem hún hefur getið sér á alþjóða vettvangi.






Comments: Skrifa ummæli



<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?