30 maí, 2007
Stokkholmur 1
Nú er tíðindamaður dagbloggsins staddur i Stokkhólmi. Sænskir hafa löngum státað af að vera öðrum þjóðum fremri í viðskiptum, samgöngum og öllu því er að skilvirkni og nútímatækni lýtur. Slíkt er þó af og frá. Á leið sinni til herragarðs Magnúsar og Sunnu varð hann að taka 3 strætisvagna. Ekki vóru þó svenskir bílstjórar þó búnir að tileinka sér kreditkortatækni í sama mæli og siðaðar þjóðir flestar og neitaði sá hinn fyrsti alfarið að taka við slíkri borgun. varð þá umræddur tíðindamaður frá að hverfa og gekk með föggur sínar drjúgan spöl og leitaði uppi hraðbankafilial eitt mikið og tók út kontant greiðslu umtalsverða. Næsti vagn kom halftíma síðar og dró þá áður umræddur tíðindamaður fram sænska peningaseðla, litprentaða með myndum af kónginum, drottningunni og allskyns pótintátum er nafnkunnir og - togaðir ku vera þar í landi. Taldi vagnstjóri öll vandkvæði á að taka við slíkri greiðslu og vildi einungis sjá kúpong, en það er fyrirbæri sem fundið var upp til að viðhada bürókratíi sem er þjóðaríþrótt þarlend. Varð hann enn a ný frá að hverfa og upphófst nú leit að kúpóng-fösäljara, sem er stétt manna er til heldur í kíoskum þar til gjörvum. Að slíkum fundnum var enn á ný leitaður uppi næsti vagn og þá loks var áður oft umræddur tíðindamaður góðkenndur sem persona grata intercitytrafíkórum. Komst hann loks fyrir náttmál á áfangastað og var tekið með kostum og kynjum.
Á morgun hyggst tíðindamaður reyna við metróinn, enda annálaður metró-maður. Meira um það seinna....