03 desember, 2006

Limrur

Eitt það allra vinsælasta í jólabókaútgáfunni þetta árið eru s.k. limrur. Þær ku vera að forminu til íslensk afbökun á írskum drykkjuvísum. Margir hafa að því er virðist ætlað sér að öðlast fé og frama á útgáfu slíkra vísna þetta árið. Og er það vel. Sökum gífurlegra anna við jólaskreytingar, hangikjöts- og jólaölssmökkun hefur Steinn þó ekki séð sér fært að taka þátt í jólabókaflóðinu. Hann gaf þó vefstjóra góðfúslegt leyfi (með semingi þó, blessaður) að birta hér limrur nokkrar sem hann hefur sett saman af stráksskap á aðventunni.

Hinni og hinn

Hávaxni bróðirinn Hinni.
Hann var mun stærri en Binni.
En hann þótti smækka
er hinn fór að stækka
og loks varð hann miklu minni.


Akademísk metorð

Háskólaaðjúnktinn Hektor
var í hálfri stöðu sem lektor
en svo 100%
og síðar sem dósent
Uns loks var hann ráðinn sem rektor


Steingrímur afneitar Framsóknarflokknum

Hann fór inn í skápinn hann Fommi
með flösku af grænleitu rommmi
og borðaði helling
af hrísgrjónavelling
og kom útúr skápnum sem kommi.


Af ævintýrum Bin Ladens í Þýskalandi

Í þýsku var góður, en þó sama
um þjóðverja, hreinláta og rósama;
Ich brauche nicht baden.
Ich Bin eingeladen
zum Nachspiel, und ich heiße Osama !!!

Comments:
Getur verið að í annarri línu annarra limru hafi misritast rektor fyrir lektor??
 
Það kann að vera að misritun hafi átt sér stað. Prófarkalesarinn er um þessar mundir á alþjóðlegri ráðstefnu um tengsl typografíu og apoplexíu á Dalartanga en þar er afar lítið netsamband.
Það leiðréttist hér með
 
Skrifa ummæli



<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?