20 mars, 2006


Já tíminn líður hratt. Það eru ekki allir sem hafa áttað sig á því að ég hef núna bloggað í 3 og hálft ár næstum en ég byrjaði þann 2. nóvember 2002. En óhætt er að segja að um það leyti hafi byrjað eitt mesta hagvaxtarskeið sem íslenska þjóðin hefur gengið í gegnum. Mikið vatn hefur auðvitað runnið til sjávar og sveita síðan þá og enginn hefði getað séð fyrir þær miklu breytingar sem eiga myndu sér stað. Mikil bylting var til dæmis þegar ég uppgötvaði að hægt væri að setja myndir á bloggið. Lengi framanaf var ég með á blogginu jólaseríu sem Ómar setti upp fyrir mig og hékk hún þar í nokkur ár. En svo tókst mér með hjálp færustu kerfisfræðinga að taka hana niður. Og svo kom ISDN og ADSL og LSD og BMW með ótakmarkað niðurhal en mér tókst að sneiða hjá öllum slíkum tískufyrirbærum og hélt bara áfram að blogga upp á gamla móðinn ég er núna orðinn gamall og hef aldrei lært á MSN og á varla eftir að gera það héðan af.

Forðum bloggi batt mitt trúss
blautur handan eyra
Þriggja og hálfs árs þref og stúss
þrálát tölvuveira.

Comments:
Þú mátt nú vera duglegri Steinn minn.

Nýmóðins er Steinninn stuð,
stendur hann við skriftir.
Annað slagið tal og tuð,
týru upp hann lyftir.
 
Til hamengju Steinn, fyrir að vera loksins búinn að meðtaka nýjustu tæknina...
Ég held að þessi bloggsíða þín eigi eftir að ávinna sér tryggan lesendahóp um ókomna tíð.
 
Skrifa ummæli



<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?